154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

endurnot opinberra upplýsinga.

35. mál
[18:18]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel mikil tækifæri í þessu frumvarpi til að ýta við opinberum aðilum sem hafa ekki verið að birta gögn með nægilega örum hætti, nægilega skýrt og ekki á stafrænu formi. Ég held að við þurfum að hugsa þetta út frá fólki í landinu, til hagsbóta almenningi sem vill nýta gögnin til þess einmitt að búa til nýjar lausnir, nýta þau á nýjan hátt eða að búa til verðmæti sem við sjáum ekki fyrir í dag. Við höfum fengið þær ábendingar, m.a. frá MIT, að hér á Íslandi fari fram öflugt rannsóknastarf, við séum með öfluga háskóla og öflugt net rannsakenda og stuðningssjóði og hér séum við með fjölmarga frumkvöðla miðað við höfðatölu sem eru óhræddir við að búa til nýjar lausnir en tengingunni þarna á milli sé ábótavant. Þetta frumvarp er kannski einn liður í því að reyna að tryggja það að rannsóknir séu aðgengilegri og opnari fyrir frumkvöðla og einstaklinga og lögaðila til að nýta til nýsköpunar og ýmissa lausna. 4. gr. frumvarpsins er nýmæli, að heimilt sé án endurgjalds að endurnota rannsóknargögn og það sé skýrt að þau gögn sem eru fjármögnuð af hinu opinbera falli undir slíkt ákvæði. Það byggir hins vegar á því að þau hafi verið gerð aðgengileg hjá stofnuninni sjálfri. Þetta þarf kannski líka að setja í samhengi við fyrirhugaða stefnumótun um opin vísindi sem þarf að klára og vinna, enda er þetta nýmæli. Það er kannski aðallega hvati nú í þessu frumvarpi og skýr leið til að segja hvernig við viljum hafa hlutina. En síðan þurfum við að ganga mögulega aðeins lengra í stefnumótun (Forseti hringir.) um opin vísindi. En þetta er fyrsta skrefið af því að hingað til hefur ekki verið fjallað um rannsóknargögn.